Rio Ferdinand, fyrirliði enska landsliðsins, verður ekki með liðinu á HM í Suður-Afríku eftir að hann meiddist á hné á æfingu liðsins í morgun. Eftir myndatöku á sjúkrahúsi kom það í ljóst að hann getur ekki spilað með enska landsliðinu í heimsmeistarakeppninni.
Rio Ferdinand yfirgaf sjúkrahúsið á hækjum og skömmu síðar lak það út til enskra fjölmiðla að meiðslin myndu kosta hann heimsmeistarakeppnina.
Ferdinand var einn af þeim líklegustu til að lyfta bikarnum eftir úrslitaleikinn 11. júlí enda enska landsliðið sigurstranglegt í keppninni.
Ferdinand meiddist eftir að hafa lent í tæklingu við Emile Heskey í lok æfingarinnar sem var sú fyrsta hjá enska landsliðinu síðan að það kom út til Suður-Afríku. Landsliðsþjálfarinn Fabio Capello sagði tæklinguna hafa verið minniháttar.
Michael Dawson, miðvörður Tottenham, er á leiðinni til Suður-Afríku og mun taka sæti Ferdinand í enska landsliðshópnum.
Rio Ferdinand var meiddur í baki stóran hluta tímabilsins en var búinn að taka þátt í öllum æfingum landsliðsins undanfarnar tvær vikur.
Rio Ferdinand á hækjum út af sjúkrahúsinu og missir af HM
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
