Fótbolti

Holland og Brasilía spila upp á að vinna - ekki til að skemmta

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
AFP
Við komum hingað til að vinna – ekki spila fallegan fótbolta. Þetta má lesa úr orðum bæði Dunga og Berts van Marwijk sem mætast með lið sín í átta liða úrslitum HM í dag. Brasilía er í fyrsta sæti á styrkleikalista FIFA og Holland í því fjórða. „Við komum til að vinna, ef við getum spilað fallegan bolta í leiðinni er það bara fínt. En ég sagði líka þegar ég tók að mér þetta starf að við verðum líka að læra hvernig á að vinna ljótu leikina,“ sagði van Marwijk sem hefur úr öllum sínum leikmannahópi að skipa. Sömu sögu er ekki að segja af Dunga sem verður án Ramires, sem er í banni, Elano, sem er meiddur og þá er Felipe Melo tæpur. Þeir hafa allir spilað mikið og því er miðja Brasilíu þunnskipuð þar sem Julio Baptista er einnig tæpur. Gilberto Silva byrjar og Kleberson, fyrrum leikmaður Manchester United, gæti fengið tækifærið eða Josue. Þetta verður fjórða viðureign Hollands og Brasilíu á HM, hvor þjóð hefur unnið einn leik og þau hafa gert eitt jafntefli. „Við vitum að það verða alltaf væntingar um að Brasilía vinni en að vera sigurstranglegastir hjálpar þér ekki að verða heimsmeistari,“ segir Dunga. „Sumir efuðust um að við myndum standa okkur að lokum en því lengra sem við komumst því meira eykst sjálfstraustið. Við vonumst til að komast alla leið í úrslitin, aðalatriðið er að vinna, ekki hvernig við vinnum,“ sagði þjálfarinn. Leikurinn hefst klukkan 14.00 í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×