Enski boltinn

Di Matteo er ekki hrifinn af mánudögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Di Matteo.
Roberto Di Matteo. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Di Matteo er ekki hrifinn af því að spila á mánudögum en lið hans, West Brom, mætir Blackpool á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

West Brom hefur gengið vel í upphafi tímabilsins og er í sjötta sæti deildarinnar. Með sigri í kvöld kemst liðið upp í átján stig og þar með í fjórða sætið - upp fyrir milljarðalið Manchester City.

Di Matteo er ekki hrifinn af því að spila síðasta leik umferðarinnar og vera þannig í eltingarleik við önnur lið sem hafa þegar unnið sér inn sín stig um helgina.

„Okkur gekk ekkert sérstaklega vel þegar við spiluðum á mánudögum á síðasta keppnistímabili," sagði Di Matteo við enska fjölmiðla. „Ég er ekki hrifinn af mánudagskvöldum. Þetta er frábært fyrir sjónvarpið og alla aðra sem hafa þegar spilað sína leiki á laugardegi eða sunnudegi. Ég held að það sé meiri pressa á liðum sem spila mánudagsleikinn."

„Venjulega tek ég mér frí á mánudögum og fer þá út að borða í hádeginu með eiginkonu minni og horfi svo á fótbolta í sjónvarpinu um kvöldið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×