Erlent

Hvetur almenning til að halda ró sinni

Hundruð þúsunda Frakka mótmæla nú á götum landsins þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Nicolasar Sarkozy, Frakklandsforseta, um að hækka lágmarks eftirlaunaaldur í landinu úr 60 árum í 62 ár.

Gríðarlegur halli er á eftirlaunasjóðum Frakka, eða um 5000 milljarðar íslenskra króna og stefnir hallinn í 8000 milljarða árið 2020 verði ekkert að gert. Það er svipuð upphæð og talið er að erlendir kröfuhafar hafi tapað á íslenska efnahagshruninu. Stjórnvöld segja nauðsynlegt að hækka eftirlaunaaldurinn þar sem Frakkar lifi lengur en áður.



Frá höfuðborginni París.Mynd/AP
Starfsmenn tólf olíuhreinsunarstöðva í Frakklandi ákváðu í gær að ganga til liðs við fjölda annarra starfsstétta sem eru í verkfalli til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Áhrif þessa gætti strax í gær þegar flæði á eldsneyti til flugvalla í París minnkaði til muna. Talið er að Orly flugvöllur hafi eldsneyti út vikuna en eldsneyti gæti gengið til þurrðar á Charles de Gaulle og Roissy flugvelli undir loka helgarinnar. Þá er elsdneyti ekki dreift á bensínstöðvar og lestarsamgöngur hafa gengið úr skorðum.

Efnahagsráðherrann Christine Lagarde hvetur almenning til að halda ró sinni. Hún segir að eldsneytisbirgðir landsins komi ekki til með þrjóta vegna verkfallsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×