Enski boltinn

Enn breytingar í vændum hjá QPR - Matthaus orðaður við félagið

Ómar Þorgeirsson skrifar
Lothar Matthaus.
Lothar Matthaus. Nordic photos/AFP

Daily Mail kveðst hafa heimildir fyrir því að enska b-deildarfélagið QPR sé enn og aftur að huga að breytingum og að staða knattspyrnustjórans Mick Harford hangi nú á bláþræði.

Blaðið greinir frá því að Lothar Matthaus sé líklegur arftaki Harford en Þjóðverjinn sást nýlega sitja við hlið eigandans Flavio Briatore á leik QPR og Ipswich.

Fari svo að Matthaus taki við liðinu yrði hann fjórði stjórinn til að stýra liðinu á þessarri leiktíð en á undan Harford voru Jim Magilton og Paul Hart búnir að reyna sitt til þess að bjarga liðinu sem er nú í 17. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

Matthaus hefur stoppað víða við á tæplega tíu ára þjálfaraferli sínum og stýrt félagsliðinum Rapid Vín, Partizan Belgrad, Atletico Paranaense, Red Bull Salzburg og Maccabi Netanaya ásamt því að hafa verið landsliðsþjálfari Ungverjalands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×