Enski boltinn

Hodgson: Chelsea er ekki óstöðvandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, segir að topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Chelsea, sé ekki óstöðvandi þrátt fyrir gott gengi á tímabilinu.

Liverpool hefur nú unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum, nú síðast gegn Napoli í Evrópudeild UEFA.

„Mörg lið hafa reynt að stöðva Chelsea í haust en mistekist," sagði Hodgson við enska fjölmiðla. „En ég tel að ekkert lið sé óstöðvandi. Öll lið, sama hversu góð þau eru, munu eiga sína slæmu daga og tapa leikjum."

„Maður vonast til þess að þeir eigi slæman dag á sunnudaginn. Eða þá að við hittum á frábæran leik og þeir munu lenda í vandræðum. Ég er að vonast til þess."

Chelsea er með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar og Hodgson segir að þeir séu líklegir til að verja titilinn sinn. „Chelsea er þegar komið með væna forystu og hefur meira að segja unnið leiki þegar þeir hafa ekki verið upp á sitt besta. En það er mikið eftir af tímabilinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×