Fótbolti

Fabio Capello: Verðum vonandi ánægðari eftir næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins.
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins. Mynd/AP
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, átti 64 ára afmæli í dag en afmælisgjöfin frá ensku landsliðsmönnunum var súr frammistaða og markalaust jafntefli á móti Alsír. Enska liðið er í 3. sæti í riðlinum með tvö stig en getur tryggt sér sæti í 16 liða úrslitum með sigri á Slóveníu í lokaleik sínum í riðlinum.

„Við eigum ennþá eftir að spila einn leik og við vonum að við verðum ánægðari eftir þann leik. Ég veit ekki hvort að þetta sé pressan eða hvað en við erum ekki í góðum gír. Við erum að tapa of mörgum boltum og ég veit vel að þetta er ekki sama lið og við erum vön að sjá," viðurkenndi Fabio Capello í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

„Ég vil ekki tala um einstaka leikmenn því sökin er hjá liðinu þegar leikmenn eru ekki að spila vel. Ég veit að ég get breytt um taktík og ég mun örugglega reyna eitthvað nýtt í næsta leik. Það verður ekki erfitt að rífa strákana upp fyrir Slóveníu-leikinn því þeir vita vel hvað þeir þurfa að gera," sagði Fabio Capello.

„Ég sagði við leikmennina að þetta hafi ekki verið góður leikur en líka að við værum heppnir því við fáum annan leik til að bæta fyrir þessa frammistöðu. Ég hef alltaf trú á mínu liði," sagði Capello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×