Enski boltinn

Stoke vann sannfærandi sigur á Liverpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ricardo Fuller fagnar marki sínu í dag.
Ricardo Fuller fagnar marki sínu í dag.

Vandræðagangur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni hélt áfram í dag er liðið tapaði fyrir Stoke, 2-0. Sigur Stoke var fyllilega sanngjarn enda var liðið mun sterkara nær allan leikinn.

Það var átakanlegt að fylgjast með liði Liverpool í fyrri hálfleik en Stoke yfirspilaði strákana frá Bítlaborginni. Liverpool var heppið að fara með 0-0 í hálfleik.

Stoke hélt áfram að þjarma að Liverpool í síðari hálfleik og pressan bar loks árangur er Ricardo Fuller skoraði af stuttu færi.

Liverpool komst ekki oft nálægt því að jafna metin og það var sanngjarnt er Kenwyne Jones skoraði annað mark fyrir Stoke á 90. mínútu og gulltryggði sigurinn.

Til að bæta gráu ofan á svart hjá Liverpool þá fékk Lucas að líta rauða spjaldið í uppbótartíma.

Eiður Smári Guðjohnsen sat sem fastast á varamannabekk Stoke í leiknum eins og venjulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×