Fótbolti

Del Bosque heldur tryggð við Torres

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Spánar.
Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Spánar. Nordic Photos / Getty Images
Vicente del Bosque ætlar að halda tryggð við Fernando Torres þrátt fyrir markaleysi hans á HM í Suður-Afríku.

Spánn mætir á morgun Paragvæ í fjórðungsúrslitum keppninnar og spænski landsliðsþjálfarinn gaf til kynna að Torres verði áfram í byrjunarliðinu.

„Fernando er framherjinn okkar," sagði hann. „Hann hefur spilað mikið í þessum fjórum leikjum og heldur því áfram því við höfum mikla trú á honum."

Fernando Llorente kom inn á sem varamaður fyrir Torres þegar hálftími var eftir af leik Spánar og Portúgals í 16-liða úrslitunum. Llorente þótti standa sig vel og fríska upp á sóknarleik liðsins. En del Bosque telur að Torres hafi mikilvægu hlutverki að gegna.

„Hann er mjög duglegur og vinnur mikið fyrir liðið allt. Hann límir sig á miðverði andstæðinganna, dregur varnir í sundur og býr til pláss fyrir Villa og aðra leikmenn fyrir aftan hann. Hann er afar gagnlegur fyrir okkur," sagði del Bosque.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×