Paul Coutts, leikmaður skoska U-21 landsliðsins, tók út leikbann í fyrri leik Íslands og Skotlands á fimmtudagskvöldið og horfði á leikinn í stúkinni á Laugardalsvelli.
Hann verður þó með Skotunum í kvöld en James Artfield, leikmaður Huddersfield, er nú í banni.
"Mér fannst strákarnir standa sig vel en þetta var erfiður leikur," sagði Coutts. "Við vissum að það yrði alltaf erfitt að fara á þennan útivöll og við hefðum sjálfsagt sætt okkur við fyrirfram að tapa með eins marks mun."
"Nú vitum við að sigur á heimavelli mun koma okkur í úrslitakeppni EM. Við getum ekki farið fram á meira en það."
Hann segir um leikinn sjálfan að honum fannst skoska liðið bera of mikla virðingu fyrir því íslenska.
"Þeir eru mjög góðir í að sækja og nýta sér kantana. Við þurfum að pressa á þá framar á vellinum og stöðva þannig þeirra sóknaraðgerðir. Við þurfum líka að vera þéttir á miðjunni og reyna að leysa upp spilið þeirra."
"Ég er viss um að leikurinn í kvöld verði allt öðruvísi en fyrri leikurinn. Þetta verður stærsti leikur flestra á ferlinum og það væri frábært að vinna þennan leik."