Enski boltinn

Arsene Wenger móðgaði Martin O'Neill eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Martin O'Neill eru ekki miklir vinir.
Arsene Wenger og Martin O'Neill eru ekki miklir vinir. Mynd/AFP

Martin O'Neill, stjóri Aston Villa, var allt annað en ánægður með Arsene Wenger, stjóra Arsenal, eftir markalaust jafntefli liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær. Wenger móðgaði O'Neill með því að halda því fram að leikstíll Aston Villa byggðist upp á löngum boltum fram á völlinn.

„Ég tel að við höfum tapað hér tveimur stigum því við fengum mjög góð færi. Það var samt mjög erfitt fyrir okkur í þessum leik því þeir gerðu vel í að stoppa okkar spil og við náðum aldrei takti í sendingunum," sagði Arsene Wenger og bætti við:

„Þeir beittu síðan löngum boltum þegar þeir fengu boltann. Aston Villa spilar mjög árangursríkan enskan fótbolta sem byggist upp á löngum boltum og líkamlega sterkum leikmönnum," sagði Wenger eftir leikinn.

„Ef hann sá þetta í kvöld þá er þetta fáránleg yfirlýsing. Hann hefur átt þær nokkrar í gegnum tíðina og þessi bætist bara í þann pakka. Allir sem sáu leikinn í kvöld eru honum örugglega ósammála," sagði Martin O'Neill, stjóri Aston Villa.

„Ashley Young hafði ekki tíma til að senda þessa löngu bolta fram því hann var upptekinn við að fara illa með vinstri bakvörðinn þeirra. Þessi skoðun hans er bara hrein móðgun," sagði Martin O'Neill.

Arsene Wenger missti tvo leikmenn í meiðsli í leiknum. Thomas Vermaelen er hugsanlega fótbrotinn og Eduardo da Silva tognaði aftan í læri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×