Enski boltinn

Alan Shearer: Rooney ber uppi United-liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney er hér fagnað af félögum sínum í Manchester United liðinu.
Wayne Rooney er hér fagnað af félögum sínum í Manchester United liðinu. Mynd/AFP

Alan Shearer, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins, segir að Wayne Rooney hafi borið uppi lið Manchester United á þessu tímabili en Rooney er búinn að skora 19 deildarmörk og er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég tel að hann hafi borið United-liðið uppi á stórum stundum og það er þó nokkuð ef við tökum mið að því um hvaða félag við erum að tala," sagði Alan Shearer við útvarpstöðina BBC Radio 5 live.

„Rooney hefur staðið sig frábærlega en ég vona að hann hafi ekki verið að toppa of snemma þar sem ég er mikill stuðningsmaður enska landsliðsins. Eins og hann er mikilvægur fyrir Manchester United þá er hann alveg eins mikilvægur fyrir enska landsliðið og það má enginn gleyma því," sagði Shearer.

„Fólk var að tala um að hann þyrfti að bæta við sinn leik þar sem Cristiano Ronaldo væri farinn og það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi gert það og gott betur," sagði Shearer og bætti við:

„Ég myndi heldur ekkert vera að hvíla hann því ég held að það þýði ekkert. Ég var eins á sama aldri og þú þekkir skrokkinn þinn sjálfur betur en nokkur annar. Rooney gengur á því að fá að spila leiki og hatar að missa af leikjum," sagði Shearer.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×