Innlent

Flúðu húsið vegna GSM-sendibúnaðar

Sendir Vodafone stendur á neysluvatnstanki Hitaveitu Egilsstaða og Fellabæjar og er nú í síðbúinni grenndarkynningu. Frestur íbúa til að skila inn athugasemdum rennur út 23. september.Mynd/Fjóla Malen Sigurðardóttir
Sendir Vodafone stendur á neysluvatnstanki Hitaveitu Egilsstaða og Fellabæjar og er nú í síðbúinni grenndarkynningu. Frestur íbúa til að skila inn athugasemdum rennur út 23. september.Mynd/Fjóla Malen Sigurðardóttir

Hjón á Egilsstöðum „krossleggja fingur“ sína og vona að ekki verði leyft að gangsetja að nýju GSM-sendi Vodafone ofan á tanki skammt frá heimili þeirra.

Á meðan kveikt var á sendinum fundu þau fyrir miklum óþægindum og fluttu að lokum út úr húsinu.

„Þetta var áreiti í miðeyra og á húð, sem endaði í höfuðverk og þegar mest var fann maður fyrir ógleði líka,“ segir Fjóla Malen Sigurðardóttir, íbúi á Egilsseli 17.

„Við vorum tvær fjölskyldur sem ætluðum að búa þarna í sumar en við gáfumst upp á því. Ég fann fyrir þessu fyrst og virtist vera næmust fyrir þessu, en síðan fundu þetta allir, bæði gestir og aðrir,“ segir hún.

Sumarið 2008 sáu íbúar í Egilsseli að verið var að setja upp mastur ofan á tank Hitaveitu Egilsstaða og Fellabæjar á hæð fyrir ofan götuna. Fjarskiptabúnaður er leyfisskyldur og var ekki gert ráð fyrir slíkum búnaði í deiliskipulagi hverfisins.

Íbúarnir kvörtuðu og fengu þau svör frá bænum að Geislavarnir ríkisins og Vodafone teldu geislun rafsegulsviðs sendisins vera vel undir íslenskum viðmiðum.

Upp úr áramótum fór Fjóla að finna fyrir óþægindunum. Í apríl ræddu hjónin við byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, sem taldi óþægindin ekki geta stafað af loftnetinu. Í maí leituðu þau til Heilbrigðiseftirlits, sem vísaði á Geislavarnirnar.

Í lok maí báðu hjónin fyrirtækið Hélog, sem mælir rafgæði og -truflanir, að kanna málið. Íbúðarhúsið stóðst allar mælingar, en margt þótti ábótavant við frágang sendisins.

Í júní var byggingarleyfi sendisins fellt niður og hefur verið slökkt á honum á meðan hann er grenndarkynntur. Fjóla hefur ekki fundið fyrir óþægindum síðan.

„Það er skrýtið að þetta sendir út frá sér svona miklar bylgjur og það virðist engin eftirlitsskylda vera til staðar, þótt þeir séu að úða mengun út í andrúmsloftið. Hins vegar má ekki keyra bíl úti á götu án þess að hann sé fyrst mengunarmældur,“ segir Fjóla.

Ekki náðist í Eirík Björn Björgvinsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs. klemens@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.