Karlmaður á fertugsaldri sem féll ofan í húsgrunn við sumarbústað við Flúðir í nótt með þeim afleiðingum að sjö steypustyrktarjárn stungust inn í hann er kominn á gjörgæsludeild. Þar er honum haldið sofandi í öndunarvél, alvarlega slösuðum.
Steypustyrktarjárnin festust í líkama mannsins og saga þurfti þau í sundur með slípirokk til þess að hægt væri að koma honum undir læknishendur.
Hann var svo fluttur með þyrlu á slysadeild í Reykjavík.

