Innlent

Féll í grunn og fékk sjö steypustyrktarjárn í líkamann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ Vilhelm.
Mynd/ Vilhelm.
Karlmaður á fertugsaldri slasaðist alvarlega á Flúðum þegar að hann féll ofan í grunn á viðbyggingu og lenti á steypustyrktarjárnum. Lögreglan á Selfossi telur að sjö pinnar hafi stungist inn í manninn. Það tókst að losa manninn af pinnunum og var hann fluttur með þyrlu á slysadeild í Reykjavík. Lögreglan á Selfossi segir að maðurinn hafi verið með meðvitund til að byrja með en honum hafi síðan hrakað. Ekkert er vitað um líðan mannsins annað en það að hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum í nótt.

Þá handtók lögreglan á Selfossi mann á fertugsaldri í heimahúsi í Þorlákshöfn skömmu fyrir eitt í nótt. Honum hafði sinnast við kærustuna sína og veifaði hníf framan í hana að sögn lögreglunnar. Maðurinn gisti fangagemyslur og verður yfirheyrður síðar í dag.

Þá gekk karlmaður berserksgang á Hótel Hlíð í Ölfusi í nótt. Hann sló hendinni í gegnum rúðu og skarst á hendi.

Um tvöleytið varð svo bílvelta á Suðurlandsvegi rétt austan við Selfoss. Lögreglumenn komust ekki á staðinn vegna mikils annríkis, en sjúkraflutningamenn sinntu útkallinu og fluttu manninn til skoðunar á sjúkrahús. Maðurinn reyndist ekki slasaður og var ekki undir áhrifum áfengis að sögn lögreglu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×