Innlent

Senda ESB athugasemdir vegna bankahrunsins

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands.
Utanríkisráðuneytið, í samráði við forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, hefur sent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins athugasemdir af Íslands hálfu varðandi viðbrögð við fjármálahruninu og nauðsynlegar aðgerðir til að stemma stigu við afleiðingum þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu. Þar segir ennfremur að í athugasemdum Íslands sé tekið undir megin tillögur de Larosière skýrslunnar varðandi endurskipulagningu eftirlits með fjármálakerfinu í Evrópu.

„Af Íslands hálfu er lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að EES/EFTA-ríkin, sem eru fullgildir aðilar að sameiginlegum fjármálamarkaði í Evrópu á grundvelli EES-samningsins, geti tekið þátt í uppbyggingu nýs fjármálaeftirlitskerfis og átt aðild að fyrirhuguðu Fjármálakerfisáhætturáði Evrópu, European System Risk Council," segir í tilkynningunni.

Þá segir að lögð sé mikil áhersla á endurskipulagningu innstæðutrygginga fyrir fjármálastofnanir og að nauðsynlegt sé að styrkja viðbragðsgetu og samábyrgð þvert á landamæri til að koma í veg fyrir hrun einstakra hagkerfa. Hvatt er til að settur verði lagalegur rammi um starfsemi matsfyrirtækja sem tryggi gagnsæi og að hagsmunir þeirra byggi eingöngu á hlutlægri greiningu á lánshæfi.

Áhersla er einnig lögð á að settar verði reglur um að umbunarkerfi stjórnenda taki mið af langtíma hagsmunum fyrirtækja fremur en skammtíma ávinningi og áhættusækni. Þá er einnig lögð áhersla á nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu um aðgengi að upplýsingum um fjármagnsflótta í skattaskjól.

Athugasemdir Íslands eru settar fram í kjölfar yfirlýsingar Evrópusambandsins frá 4. mars sl. þar sem framkvæmdastjórnin óskaði eftir tillögum og sjónarmiðum frá hagsmunaaðilum utan ESB sem innan. Framkvæmdstjórnin mun leggja fram endanlegar tillögur sínar um aðgerðir fyrir leiðtogafund ESB í júní nk. Þær tillögur munu m.a. leiða til þess að settar verða fjölmargar nýjar reglur sem snerta munu Ísland með beinum hætti í gegnum EES-samninginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×