Innlent

Hanna Birna: Þetta er dagurinn sem Höfða var bjargað

"Sem betur fer getum við nú sagt að þetta sé dagurinn sem Höfða var bjargað. Húsið er, eins og allir vita algjörlega ómetanlegt og þess vegna er okkur öllum efst í huga þakklæti til allra þeirra sem tryggðu að svo vel tókst til. Borgaryfirvöld vilja þakka öllum þeim sem að slökkvistarfinu og björgun verðmæta komu, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglu og starfsmönnum Reykjavíkurborgar," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, um eldsvoðann í Höfða.

Sjálf var hún í eldlínunni þegar hún ásamt fleirum úr borgarstjórn Reykjavíkur björguðu menningaverðmætum og innastokksmunum í brunanum fyrr í dag.

Í tilkynningu frá borginni segir að þegar sé farið að skipuleggja viðgerðir á húsinu. Lesa má tilkynninguna hér fyrir neðan:

Giftusamlega tókst að ráða niðurlögum eldsins sem upp kom í Höfða, móttökuhúsi Reykjavíkurborgar, á sjötta tímanum í kvöld. Brunaviðvörunarkerfi hússins fór í gang og allt tiltækt slökkvilið fór á staðinn. Eldurinn kom upp í risi norðvestanmegin í húsinu, og fóru reykkafarar upp á háaloft til þess að hefta útbreiðslu eldsins auk þess sem þakið var rofið til að auðvelda slökkvistarf. Ljóst er að á tímabili gat brugðið til beggja vona, en fyrir snör handtök slökkviliðs tókst að slökkva eldinn á innan við klukkustund.

Slökkviliðsmönnum, lögreglu og starfsfólki Reykjavíkurborgar tókst að bjarga verðmætum úr húsinu, þ.á.m. ómetanlegum listaverkum og sögulegum heimildum og útlit fyrir að þau séu óskemmd. Listaverkunum hefur verið komið fyrir á Kjarvalsstöðum og hafa þegar verið yfirfarin af forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur. Erfitt er að segja nákvæmlega til um umfang skemmda á húsinu á þessari stundu. Hreinsunarstarf er þegar hafið og tryggingasérfræðingar eru að meta stöðuna en húsið var brunatryggt. Einnig er byrjað að skipuleggja viðgerð á húsinu og aðgerðir til að tryggja að húsið geti sem fyrst gegnt sínu hlutverki á ný. Viðgerð mun þó ekki hefjast fyrr en rannsókn á eldsupptökum er lokið.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir að betur hafi tekist til en á horfðist í fyrstu.

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að húsið Höfði var tekið í notkun. Húsið á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Það var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin, hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Margir sögufrægir einstaklingar hafa búið í húsinu, en það er hvað þekktast fyrir leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs sem haldinn var í Höfða í október 1986, en fundurinn er talinn hafa markað upphafið að endalokum kalda stríðsins.


Tengdar fréttir

Eldur í Höfða

Eldur kviknaði í Höfða fyrir stundu. Nokkrir slökkviliðsbílar eru mættir á vettvang ásamt lögreglu og sjúkrabílum. Ekki er vitað hversu mikill eldur er í húsinu en slökkvistarf er hafið.

Slökkviliðsmenn rífa þakið af Höfða

Slökkviliðsmenn reyna í þessum töluðu orðum að slökkva eldinn bæði inn í Höfða og úti samkvæmt fréttaritara. Þá er verið að rífa hluta af þakinu af til þess að komast að eldinu svo það sé auðveldara að slökkva hann.

Borgarstjórn ber út menningaverðmæti

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, bera út málverk og sófasett úr Höfða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×