Erlent

Vopnaðir verðir í dönskum skipum

Óli Tynes skrifar
Alþjóðlegur herskipafloti má ekki beita sér gegn móðurskipum sjóræningjanna.
Alþjóðlegur herskipafloti má ekki beita sér gegn móðurskipum sjóræningjanna.

Í gærmorgun var reynt að ræna einu af skipum danska skipafélagsins Schipcraft. Tilraunin mistókst en framkvæmdastjóri Schipcraft Per Nykjær Jensen er búinn að fá nóg. Hann segir að hér eftir verði vopnaðir verðir um borð í þeim skipum félagsins sem sigli á sjóræningjaslóðum.

Nykjær Jensen segir að það verði í lengstu lög reynt að komast hjá vopnuðum átökum. Þannig muni verðirnir hafa öfluga hátalara sem verða notaðir til þess að segja sjóræningjunum að það séu vopn um borð og þau verði notuð.

Einnig verði sent út neyðarkall til alþjóðlega herskipaflotans sem er á svæðinu og hann beðinn um að senda þyrlur eða skip.

Nykjær Jensen segir að þetta verði vissulega dýrt. Hinsvegar beri félaginu skylda til þess að reyna að vernda áhafnir sínar. Það yrði einnig dýrt ef einhverju skipanna yrði rænt og þeir þyrftu að borga milljónir dollara í lausnargjald.

Nykjær Jensen þykir illt að vegna alþjóðalaga megi alþjóðaflotinn ekki beita sér meira gegn móðurskipum sjóræningjanna.

Þau flytji litla árásarbáta langt á haf út og stækki þannig margfallt það svæði sem þarf að hafa eftirlit með.

Lagaflækjur gera einnig að verkum að í sumum tilfellum mega herskipin ekki handtaka sjóræningja jafnvel þótt þeir séu staðnir að verki.

Þannig urðu til dæmis hollenskir sjóliðar að láta lausa sjö sjóræningja sem þeir handtóku eftir að þeir höfðu skotið bæði eldflaugum og af hríðskotarifflum á flutningaskip.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×