Innlent

OR lokar fyrir aðgang að Facebook

Héðan í frá notar enginn Facebook í Orkuveituhöllinni.
Héðan í frá notar enginn Facebook í Orkuveituhöllinni.
Orkuveita Reykjavíkur ákvað í morgun að loka fyrir aðgang að Facebook á meðal starfsmanna fyrirtækisins. Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa OR, þótti stjórnendum fyrirtækisins ljóst að facebook væri tómstundaþjónusta sem væri notuð í helst til miklu mæli.

Eiríkur segir að málið hafi verið rætt frá ýmsum hliðum og til greina hafi komið að beina þeim tilmælum til starfsmanna að minnka facebook notkun sína. „En þetta var niðurstaðan, að loka alveg fyrir þetta," segir Eiríkur. Hann segir að af öðrum netsamskiptatækjum hafi einnig verið lokað fyrir notkun á msn samskiptaforritinu en það hafi fyrst og fremst verið gert af öryggisástæðum. „Þetta er mikil vírusveita," segir Eiríkur. Hann segist ekki vita hvort önnur fyrirtæki séu í sömu hugleiðingum og Orkuveitan varðandi takmörkun á aðgangi að samskiptaforritum. Hins vegar hafi hann heyrt til þess að önnur fyrirtæki hafi gripið til slíkrar takmörkunar. Hann viti hins vegar ekki á hvaða forsendum það hafi verið gert.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Landspítalinn, sem er stærsti vinnustaður landsins, jafnframt lokað fyrir aðgang að msn, bloggsíðum, Facebook, leikjavefum og öðrum forritum sem gagnast starfsfólki ekki við störf sín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×