Maðurinn sem fyrr í dag gjöreyðilagði íbúðarhús sitt á Álftanesi sagðist í samtali við fréttastofu ekki hafa neinu að tapa. Maðurinn fékk kvikmyndafyrirtæki til að taka upp niðurrifið.
Maðurinn, sem er á sextugsaldri, segist hafa misst húsið á uppboði skömmu eftir bankahrunið. Lánin sem voru á húsinu voru í erlendri mynt og sá hann sér ekki fært að halda því. Hann hafi reynt að semja við bankann en ekkert verið hlustað á hann.
Fyrir skömmu hafi honum svo verið birt útburðartilkynning frá sýslumanni. Hann hefði engu lengur að tapa og því hafi hann farið og eyðilagt húsið. Það skipti hann ekki máli hvort hann fari á hausinn vegna sextíu milljón króna skuldar eða hundrað og tuttgu. Með því að eyðileggja húsið vildi hann líka vekja athygli á hvað veikur réttur hans er.
Húsið stendur við Hólmatún og var byggt árið 2003.