Innlent

Ákærður fyrir morðtilraun

Valur Grettisson skrifar
Árásin átti sér stað á Hverfisgötunni í desember.
Árásin átti sér stað á Hverfisgötunni í desember.

Hinn rúmlega tvítugi Frans Friðriksson hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps þegar hann á að hafa veist að manni og stungið hann með hnífi vinstra megin í brjósthol með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega áverka. Þá er Frans einnig ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás þegar hann á að hafa skorið félaga fórnalambsins þegar hann reyndi að forða honum frá atlögu Frans.

Það var aðfaranótt laugardags í desember síðast liðnum sem Frans á að hafa stungið manninn við Smiðjustíg við Hverfisgötuna í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn hlaut lífshættulega áverka. Þegar félagi hans kom honum til bjargar þá á Frans að hafa skorið hann á vinstri hendi þannig hann hlaut opið sár á hendi.

Frans hefur áður komist í fjölmiðla en það var fyrir tveimur árum þegar félagi hans keyrði á Hamborgarabúlluna sem stendur á horni Geirsgötu og Mýrargötu. Ástæðan fyrir því að félagi Frans ók á veitingastaðinn var sú að hann atti kappi við aðra bifreið með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bílnum sínum með fyrrgreindum afleiðingum.

Félagi hans slasaðist illa og svo stúlka sem var með þeim í bílnum. Hún höfuðkúpubrotnaði. Bæði voru þau send á gjörgæslu þar sem hlúið var að sárum þeirra.

Í viðtali við Blaðið fyrir tveimur árum síðan sagði Frans: „Ég var búinn að fá mér í glas um kvöldið og þess vegna bað ég strák sem ég var að hitta í fyrsta skipti að keyra bílinn minn heim." Frans segir ökumanninn hafa keyrt ansi hratt alla leiðina og rétt fyrir slysið hafi hann verið í spyrnukeppni við annan ökumann á Ægisgötu. „Ég er ekki bílhræddur og er vanur talsverðum hraða. Ég man samt að rétt fyrir áreksturinn sagðist ökumaðurinn vel kunna að keyra en ég sagði stelpunni hins vegar að fara í belti."

Nú hefur Frans verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og svo stórhættulega líkamsárás.

Sá sem varð verr út úr árásinni vill þrjár milljónir í skaðabætur, bjargvætturinn krefst hinsvegar þrjúhundruð þúsund króna vegna meiðslanna.

Málið var þingfest í Hérasðdómi Reykjavíkur í dag en Frans neitaði sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×