Enski boltinn

Ward: Vona að leikmenn læri af mistökum mínum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Adrian Mutu var rekinn frá Chelsea fyrir kókaínneyslu.
Adrian Mutu var rekinn frá Chelsea fyrir kókaínneyslu. Nordic photos/AFP

Fyrrum atvinnuknattspyrnumaðurinn Mark Ward, sem á árum áður lék með Everton og West Ham í ensku úrvalsdeildinni, er laus úr fangelsi eftir fjögurra ára veru á bak við lás og slá fyrir eignarhald og sölu á eiturlyfjum.

Ward var tekinn með kókaín á sínum tíma og segist nú vera laus við djöfla fortíðar sinnar og ætlar að leggja sitt að mörkum með forvarnarstarfi fyrir unga knattspyrnumenn á Englandi.

„Ég hef lært af mistökum mínum og ég vonast til þess að aðrir leikmenn á Englandi geri það líka. Ég ætla að leggja mitt að mörkum við að upplýsa unga knattspyrnumenn um hætturnar sem fylgja eiturlyfjum og eftir fjögurra ára fangelsisvist þá held ég að það sé enginn betri til þessa verks en ég.

Eiturlyf eyðilögðu líf mitt en ég ætla reyna að sjá til þess að eitthvað gott komi út úr þessu hjá mér með því að hjálpa öðrum að gera ekki sömu mistök og ég," segir Ward í samtali við Sportsmail.

Mörg dæmi eru um að leikmenn hafi fallið á lyfjaprófum síðustu ár í tengslum við kókaínnotkun en goðsögnin Diego Maradona hefur til að mynda viðurkennt að hafa átt í vandræðum með kókaín.

Þá var framherjinn Adrian Mutu gripinn glóðvolgur árið 2004. Mutu var í kjölfarið rekinn frá Chelsea og dæmdur í sjö mánaða keppnisbann fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi út af neyslu á kókaíni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×