Erlent

Castro reiðubúinn til viðræðna við Bandaríkin

Raul Castro
Raul Castro MYND/AP
Raul Castro, forseti Kúbu, segir að hann sé reiðubúinn til viðræðna við Bandaríkin um hvað sem er, þar með talið um pólitíska fanga.

Í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu sósíaliskra leiðtoga Suður-Ameríkuríkja í Venesúela í dag sagði Raul Castro að Kúbverjar hefðu sent Bandaríkjamönnum skilaboð um að þeir væru reiðubúnir til viðræðna hvenær sem þeir vildu.

Við höfum sagt þeim að við séum reiðubúnir að ræða um hvað sem er, sagði Castro. Við erum reiðubúnir að ræða um mannréttindi, fjölmiðlafrelsi, pólitíska fanga, allt allt allt.

Hann sagði að einu skilyrðin sem þeir settu væru að viðræðurnar yrðu á jafnréttisgrundvelli og að ekki væri efast um sjálfstæði Kúbu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að Bandaríkjamenn séu reiðubúnir að bæta sambúðina við Kúbu. Hann hefur létt ýmsum höftum af Kúbu sem hefur verið í bandarísku viðskiptabanni síðan árið 1962.

Árinu áður skipulögðu Bandaríkjamenn innrás kúbverskra útlaga í eyríkið til þess að steypa Fidel Castro af stóli.

Svínaflóainnrásin misheppnaðist gersamlega og Fidel Castro sat af sér níu bandaríska forseta þar til hann afsalaði sér völdum á síðasta ári vegna heilsubrests.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×