Innlent

Skátarnir gefa 4500 börnum fánaveifur

Þessa dagana er verið að dreifa í öllum grunnskólum landsins fánaveifu til allra 7 ára barna ásamt bæklingi um meðferð íslenska fánans. Skátahreyfingin fór af stað með verkefnið Íslenska fánann í öndvegi á 50 ára lýðveldisafmæli Íslands 1994 og hefur framkvæmt það árlega síðan.

„Á tímum þrenginga eru öll sameiningartákn þjóðarinnar mikilvæg og því þarf að árétta að þjóðfánanum sé ávallt sýnd tilhlýðileg virðing og ekki síst er fólk hvatt til að nota fánann til að sýna samstöðu og samhug á meðal þjóðarinnar," segir í tilkynningu frá Bandalag íslenskra skáta.

Með þessu vill skátahreyfingin hvetja börn og foreldra þeirra til að nota íslenska fánann við hátíðleg tækifæri. „Fánadreifingin tengist sumarkomunni og ávallt stefnt að því að börnin séu komin með veifurnar fyrir Sumardaginn fyrsta þannig að þau geti fagnað deginum með fánaveifu í hönd."

Í ár eru það um 4500 börn sem fá þessa gjöf frá skátunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×