Innlent

Bjóða aftur upp á ókeypis tannlækningar

Tannlæknafélag Íslands og Tannlæknadeild Háskóla Íslands munu á morgun laugardag bjóða barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör upp á ókeypis tannlæknaþjónustu. Það var einnig gert fyrir hálfum mánuði og þá komu yfir 30 börn og unglingar í skoðun.

Fjárhagslegar aðstæður margra heimila hafa breyst til hins verra á undanförnum mánuðum og því viðbúið að mörg heimili neyðist til að spara við sig þegar kemur að tannviðgerðum og eftirliti hjá börnum, að fram kemur í tilkynningu. Þá er tannheilsa íslenskra barna sú versta á Norðurlöndum. Íslensk börn eru að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en börn á hinum Norðurlöndunum.

„Því hafa tannlæknar ákveðið að koma til móts við þau heimili sem erfiðast eiga uppdráttar með sjálfboðavinnu við skoðun og viðgerðir tanna hjá börnum og unglingum," segir í tilkynningu.

Ekki er tekið við tímapöntunum en ráðstafanir eru gerðar til þess að biðtími verði ávallt hóflegur. Nánari upplýsingar eru veittar hjá Tannlæknadeild Háskóla Íslands í síma 525-4850.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×