Enski boltinn

McLeish ætlar að halda áfram hjá Birmingham

Nordic Photos/Getty Images

Knattspyrnustjórinn Alex McLeish hjá Birmingham segir ekkert til í fréttum bresku blaðanna í gær sem sögðu hann ætla að fara frá félaginu.

Greint var frá því fyrir lokaumferðina í ensku B-deildinni að McLeish ætlaði að yfirgefa félagið hvort sem það kæmist upp í úrvalsdeild eða ekki.

McLeish vísar þessu á bug og segist ekki reikna með að fara. "Nú er tími til að fagna en ekki velta sér upp úr framtíð minni. Ég hef heyrt slúður um framtíð mína en það er ekkert til í því að ég ætli að yfirgefa félagið. Þið verðið auðvitað að spyrja stjórnina að þessu, en ég veit ekki annað en að ég verði hér á næstu leiktíð," sagði McLeish.

Stjórnarformaður Birmingham, David Gold, tekur undir þetta og reiknar með stjóranum áfram. "Það hefur aldrei verið vafi með Alex í mínum huga. Við eigum mjög gott samband við hann og okkur hlakkar til að takast á við úrvalsdeildina. Liðið kæmist aldrei upp um deild ef menn væru ekki á sömu blaðsíðunni," sagði stjórnarformaðurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×