Innlent

Rannsakendur verða að gæta orða sinna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eiríkur Tómasson bendir á að þeir sem starfi við rannsókn opinberra mála megi ekki lýsa yfir sekt fólks afdráttarlaust. Mynd/ GVA.
Eiríkur Tómasson bendir á að þeir sem starfi við rannsókn opinberra mála megi ekki lýsa yfir sekt fólks afdráttarlaust. Mynd/ GVA.
„Ég er sammála því að þeir sem að eru að rannsaka mál eða koma að rannsókn máls verða að gæta orða sinna þegar þeir ræða um hugsanlega sök einhvers sem á hlut að máli," segir Eiríkur Tómasson lagaprófessor um grein Brynjars Níelssonar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Brynjar að Eva Joly sé vanhæf til að koma að rannsókn sérstaks saksóknara á efnahagshruninu..

Brynjar segir yfirlýsingar Evu Joly á opinberum vettvangi um að íslenskir fjármálamenn hafi skotið undan fé og að yfirgnæfandi líkur séu á því að stjórnendur bankanna hafi brotið lög veki furðu. Með yfirlýsingum af þessu tagi sé brotið gegn hlutlægnisreglu rannsakanda og ákæruvalds. Brynjar segir að það sé einsdæmi í réttarsögu Íslands að aðilar sem lýst hafi yfir sekt þeirra sem rannsaka skal komi að rannsókn sakamála.

Eiríkur Tómasson segist ekki hafa fylgst nákvæmlega með því sem Joly hafi sagt. „En ef ég tók rétt eftir að þá nafngreindi hún enga menn þannig að ég held að hennar ummæli feli ekki í sér nein brot á meginreglum réttarfarsins. En það hefði verið brot ef hún hefði nafngreint einhverja menn og sagt að þeir hefðu brotið af sér," segir Eiríkur.

Eiríkur bendir á að þeir sem komi að rannsókn mála verði að gæta orða sinna. Hver sá sem borinn sé sökum skuli vera saklaus þangað til að sekt hans er sönnuð fyrir dómi. „Af þeirri reglu hefur verið ályktað sem svo, og fyrir því eru dómar mannréttindastómstóls, að ef maður í opinberu starfi, sá sem kemur að rannsókn, lýsir því yfir áður en dómur fellur að maður hafi klárlega gerst sekur um refsivert brot að þá felur það í sér brot á mannréttindasáttmálanum og stjórnarskrárfyrirmælunum og þá myndi sá hinn sami vera vanhæfur," segir Eiríkur Tómasson og ítrekar að álit hans sé sett fram með þeim fyrirvara að hann hafi ekki kynnt sér mjög gaumgæfilega það sem Joly sagði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×