Innlent

Dæmdur fyrir vörslu á tæplega 500 E-töflum

E-pillur
E-pillur
Maður var á föstudag dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir vörslu á 487 E-töflum. Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Norðulands. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir þjófnað á rakspíraog dömuilmvatni, sem og fyrir vörslu á lítilræði af hassi.

Maðurinn játaði sök varðandi þjófnaðinn á rakspíranum og ilmvatninu, sem vörslu á hassi. Hann neitaði hinsvegar sök varðandi E-töflurnar. Það var móðursystir mannsins sem fann E-töflurnar að heimili sínu og afhenti þær lögreglu þann 27. desember á síðasta ári. Misræmi var milli framburðar mannsins hjá lögreglu og fyrir dómi.

Hjá lögreglu sagðist maðurinn hafa keypt töflurnar af ónefndum manni skömmu fyrir jól, og greitt fyrir þær bíl og 200 þúsund krónur að auki. Hann hafi hinsvegar fengið bakþanka og reynt að láta viðskiptin ganga til baka, en sá sem seldi honum töflurnar hafi ekki svarað í símann. Hann hafi því falið töflurnar inni á baðherbergi móðursystur sinnar meðan hann færi norður til Akureyrar. Fyrir dómi sagði hann þennan framburð vera uppspuna.

Fyrir dómi vildi maðurinn meina að annar aðili, sem hafi verið gestkomandi í húsi frænku hans ásamt fleira fólki, hefði falið töflurnar á staðnum en ekki sagt honum frá því fyrr en síðar. Hann hafi ætlað að sækja töflurnar en þar sem frænka hans hefði barið að baðherbergisdyrunum þegar hann mundaði pakkninguna með töflunum hafi hann þurft að fela þær inni á baði. Hann hafi ætlað að láta eiganda taflanna fá þær, en ekki komist inn í húsið til að sækja þær eftir að frænka hans var farin norður til Akureyrar.

Í niðurstöðu dómsins þótti ekki sannað að ákærði hafi átt efnin sjálfur. Honum hafi hinsvegar verið kunnugt um þau og ekki gert neitt til að láta lögreglu vita.

Maðurinn á langan sakaferil að baki og í ljósi þess var ekki unnt að binda dóminn skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×