Innlent

Ögmundur fagnar yfirlýsingum forsætisráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur sagði af sér ráðherraembætti vegna þrýstings í Icesave málinu. Mynd/ Stefán.
Ögmundur sagði af sér ráðherraembætti vegna þrýstings í Icesave málinu. Mynd/ Stefán.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, fagnar yfirlýsingum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í fjölmiðlum um helgina. Jóhanna sagði að það væri óásættanlegt ef Íslendingar geti ekki leitað réttar síns komi í ljós síðar að við séum ekki skyldugir til að greiða af Icesave láninu.

Ögmundur segir á vefsíðu sinni að yfirlýsing forsætisráðherra sé mjög mikilvæg. „Þarna hefur breyting orðið á frá því í síðustu viku og nokkuð sem að mér finnst vera skref í rétta átt," segir Ögmundur í samtali við Vísi. Hann vill þó ekkert tjá sig um það hvort lending sé að nást hjá stjórnarflokkunum um Icesave málið. „Ég gef mér ekkert um það ennþá, einfaldlega vegna þess að niðurstaðan liggur ekki fyrir," segir Ögmundur. Yfirlýsingar forsætisráðherra séu þó í rétta átt. „Mér var sagt í síðustu viku að nú væri að hrökkva eða stökkva eins og málið lá fyrir þá og þá var það algjörlega óaðgengilegt af minni hálfu. En ef að það er breyting á afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum að þá er það bara mjög gott mál," segir Ögmundur.

Ögmundur segir að uppgjör Landsbankans, sem bendir til þess að 90% af Icesave skuldbindingunum muni fást út úr þrotabúi Landsbanka Íslands, breyti engu fyrir afstöðu sína til Icesave málsins. „Það sem við erum að tala um í þessu samhengi er að þetta er byggt á líkindareikningi og hvorki ég né þú vitum hver veruleikinn verður," segir Ögmundur. Málið snúist um lagalegu fyrirvarana. „Þannig að þetta snýst ekki núna um krónur og aura eða penny og pund eða evrur eða hvað það nú heitir," segir Ögmundur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×