Enski boltinn

Capello: Meiddir menn fara ekki á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari. Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segir að aðeins leikmenn sem séu að stærstum hluta lausir við meiðsli komi til greina fyrir val hans á leikmannahópnum sem fer á HM í Suður-Afríku í sumar.

Þetta þýðir að menn eins og Rio Ferdinand, David James og Steven Gerrard eiga það á hættu að missa af HM ef þeir ná sér ekki góðum af þeim meiðslum sem hafa verið að hrjá þá að undanförnu.

„Aðeins leikfærir leikmenn munu fara til Suður-Afríku," sagði Capello við enska fjölmiðla. „Það þýðir ekkert að fara meiddur og ætla að jafna sig þá."

„Það er kalt í Suður-Afríku á þessum árstíma og það hægir á bataferlinu. Það er því ómögulegt að ætla að bíða eftir því að leikmaður jafni sig. Ef menn eru að glíma við smávægileg meiðsli er það í lagi en annars ekki."

Capello var sérstaklega spurður um stöðu Rio Ferdinand. „Rio er einn besti miðvörður heims og ég hef engar áhyggjur af getu hans á vellinum. En hann þarf að vera leikfær og spila alla þá leiki sem hann getur."

Capello útilokaði einnig að Ledley King, leikmaður Tottenham, yrði valinn í landsliðið. „Við höfum rætt um hans stöðu og ég get ekki valið hann. Hann æfir aðeins á föstudögum svo hann geti spilað á laugardögum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×