Innlent

Ríkisstjórnin jafn óvinsæl og stjórn Geirs

Svipuð andstaða mælist nú við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og mældist við ríkisstjórn Geirs H. Haarde strax eftir bankahrun í október í fyrra. 56,1% segjast ekki styðja núverandi stjórn en 54,8% sögðust ekki styðja stjórn Geirs í október. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 43,9% sem er viðsnúningur frá því í apríl þegar 51,5% sögðust styðja þáverandi ríkisstjórn sömu flokka og nú sitja í ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir verulega við sig



Samkvæmt könnuninni bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig tæpum 8% frá þingkosningunum 25. apríl og mælist nú stærsti stjórnmálaflokkur landsins. 31,6% segjast myndu kjósa flokkinn væri gengið til kosninga í dag en flokkurinn fékk 23,7% í kosningunum í vor.

Stuðningur við Samfylkinguna dalar aftur á móti nokkuð og mælist nú 24,1% en var 29,8% í þingkosningunum. Fylgi Vinstri grænna mælist 19,8, Framsóknarflokkurinn mælist 16,6% og Borgarahreyfingin með 3,1% fylgi.

4,8% segjast myndu kjósa aðra flokka samkvæmt könnuninni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×