Innlent

Tafir Svandísar atlaga gegn endurreisninni

Þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sakar umhverfisráðherra um atlögu gegn endurreisn efnahagslífsins með því draga mánuðum saman að staðfesta skipulagsbreytingar sem leyfa virkjanir í Þjórsá.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur samþykkti í nóvember í fyrra að Holta- og Hvammsvirkjun yrðu settar inn á aðalskipulag. Oddvitinn, Gunnar Marteinsson, segir slæmt hve lengi umhverfisráðherra dragi að staðfesta skipulagið, tafirnar séu komnar út fyrir öll eðlileg mörk. Flóahreppur samþykkti Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag í desember. Þar bíða menn líka staðfestingar ráðherra. Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri segir að ástandið sé orðið skelfilegt og sveitarfélaginu sé haldið í gíslingu því ekkert annað sé heldur hægt að framkvæma á meðan í stórum hluta hreppsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður Framsóknarflokksins, segir að þetta sé klárlega virkjanapólitík, - andstaða gegn virkjunum, - en ekki endilega faglegt mat á skipulagsmálum. Með þessu sé gengið gegn stöðugleiksáttmálanum. Þetta sé í raun atlaga gegn endurreisninni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hafnar því að hér ráði pólitík för. Hún segir þessi mál í eðlilegum farvegi og lögfræðileg álitamál hafi komið upp, sérstaklega í ljósi nýlegrar álitsgerðar samgönguráðuneytis um greiðslur Landsvirkjunar fyrir skipulagsvinnu. Spurð hvenær búast megi við ákvörðun svarar hún að það verði mjög fljótlega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×