Innlent

Ekki móðurfélagsábyrgð og því ekki hægt að ganga að Magma ef illa fer

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, situr í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, situr í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Mynd/Haraldur Jónasson
„Þá er það mikið áhyggjuefni að móðurfélagsábyrgð Magma er ekki á skuldabréfinu heldur einungis veð í bréfum í HS orku," segir í bókun Sigrúnar Elsu Smáradóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa flokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, vegna sölu á hlut fyrirtækisins í HS orku til kanadíska félagsins Magma Energy.

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti á fundi sínum í dag kaupsamning við Magma Energy um 16,58% hlut OR og tæplega 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki borgarráðs og borgarstjórnar Reykjavíkur. Fulltrúar minnihlutans í stjórninni greiddu atkvæði gegn samningnum og gagnrýna þeir þann skamma tíma sem stjórnarmönnum gafst á að kynna sér efni samningsins.

Í samtali við fréttastofu sagði Sigrún Elsa slæmt að ekki skuli vera móðurfélagsábyrgð á skuldabréfinu. Ef illa fer verður ekki hægt að ganga að Magma. Þetta er mikið áhyggjuefni, að mati Sigrúnar Elsu.

Að hennar mati er forkastanlegt að stjórnarmönnum hafi einungis verið gefin klukkustund til að kynna sér innihald samningsins. „Tilboðið sem fyrir liggur er óhagstætt fyrir OR og áhættan sem því fylgir allt of mikil. 70% tilboðsins er greitt með skuldabréfi, sem greiðist upp með einni greiðslu eftir sjö ár," segir í bókun borgarfulltrúans.




Tengdar fréttir

Salan til Magma samþykkt í stjórn OR

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í dag að selja hlut sinn í HS Orku til kanadíska félagsins Magma Energy. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki borgarráðs og borgarstjórnar Reykjavíkur. Fulltrúar minnihlutans í stjórninni greiddu atkvæði gegn samningnum og gagnrýna þeir þann skamma tíma sem stjórnarmönnum gafst á að kynna sér efni samningsins.

Stjórnarformaður Orkuveitunnar: Ekki verið að einkavæða HS orku

„Með þessum samningum er ekki verið að einkavæða HS Orku,“ segir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Stjórn fyrirtækisins samþykkti á fundi sínum í dag kaupsamning við Magma Energy um 16,58% hlut OR og tæplega 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku. Jafnframt samþykkti stjórnin samkomulag við Hafnarfjarðarbæ um uppgjör milli aðila vegna viðskipta þeirra með hluti í Hitaveitu Suðurnesja.

Steingrímur fór fram á lengri frest en fékk ekki

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra óskaði eftir lengri fresti til þess að móta hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóðanna og sveitarfélaga að kaupum á hlut Orkuveitunnar í HS Orku. Guðlaugur Sverrisson stjórnarformaður OR segir ekki hægt að verða við beiðninni. Tilboð Magma Energy í hlutinn rennur út klukkan fimm í dag.

Arður HS orku verði eftir í landinu

Hugmyndir eru uppi um að lífeyrissjóðir, ríkissjóður sveitarfélög og jafnvel bankar eignist meirihluta í HS Orku þannig að arður af fyrirtækinu verði að sem mestu eftir í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×