Íslenski boltinn

Valur Fannar: Áttum ekkert meira skilið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis.
Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti í sumar sem við misnotum tækifæri til að komast í annað sætið," segir Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis, en Árbæjarliðið tapaði fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld 1-0.

„Við áttum bara ekkert meira skilið. Þeir voru sterkari en við á flestöllum sviðum og vildu þetta meira. Við vorum yfirleitt of seinir í alla bolta. Við áttum nokkur góð færi fyrstu fimmtán mínúturnar en eftir það var ekkert mikið í gangi hjá okkur," sagði Valur.

„Við reyndum allt sem við gátum en þetta var ekki alveg eins og þetta átti að vera. Við ætluðum okkur meira og menn voru orðnir ansi pirraðir þarna í seinni hálfleiknum."

Blikar voru ósáttir við að Valur Fannar fengi ekki rauða spjaldið í seinni hálfleiknum. Hann fékk gult í fyrri hálfleik og átti síðan þónokkur brot en slapp með að fá annað spjald frá Garðari Erni dómara.

„Já þeir töldu mig eiga eitthvað uppsafnað. Svona er þetta, maður fauk ekki út af í þessum leik. Það var engin illska á bakvið neitt en stundum verður maður bara of seinn og þannig er það bara," sagði Valur.

Rétt fyrir verslunarmannahelgi féllu Fylkismenn út úr bikarnum þegar þeir töpuðu fyrir Fram. „Það er ekki alveg okkar tími núna en við komum svo sannarlega sterkir í næsta leik. Við eigum Stjörnuna í næsta leik og þar er stefnan sett á þrjú stig," sagði Valur Fannar Gíslason.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×