Innlent

Miðstýring á að minnka hjá lögreglu

Telma Tómasson skrifar

Meiriháttar skiplagsbreytingar eru framundan hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fimm sjálfstæðar lögreglustöðvar verða settar upp, miðstýring minnkar og fjölmennara lið lögreglu fer út í hverfin.

Skipulagsbreytingarnar eru í raun síðasti liðurinn í sameiningu þriggja lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu sem hófst 1. janúar 2007. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að færa þjónustu lögreglunnar nær íbúum hverfanna, með eflingu grenndar- og hverfalöggæslu, og er stefnt að því að starfsemi hefjist eftir nýju skipuriti ekki síðar en í maí. Eitt af markmiðunum er að lögreglan verði sýnilegri.

Fimm sjálfstæðar lögreglustöðvar verða starfræktar, sem hver um sig hefur umsjón með svæðum þar sem íbúafjöldi er nokkuð jafnt skiptur. Til að byrja með mun lögreglustöðin við Hverfisgötu hýsa tvær stöðvar - annars vegar fyrir austurhluta Reykjavíkur og hins vegar fyrir vestari hlutann, miðbæinn og Seltjarnarnes.

Ein stöð mun sinna Kópavogi og Breiðholti, en það er stærsta svæðið og búa þar um 50 þúsund manns. Til að byrja með verða tvær stöðvar fyrir Mosfellsbæ, Grafarvog, Grafarholt og Árbæ, en að ári liðnu verða þær sameinaðir í einni. Fimmta stöðin hefur síðan umsjón með löggæslusvæðinu í Hafnarfirði og Garðabæ. Gætt er að því að skipting milli stöðva sé jöfn.

Yfirstjórn lögreglunnar, sem og sérstakar rannsóknardeildir sem annast fíkniefnabrot, fjármunabrot, manndrápsmál, kynferðisbrot, heimilisofbeldi og skipulagða glæpi verða áfram í aðalstöðinni við Hverfisgötu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×