Lífið

Kreppan er komin í Kattholt

Sigríður Heiðberg segir aldrei fleiri kettlinga hafa komið í Kattholt en um þessar mundir. Ástæðan sé sú að fólk láti ekki taka dýrin úr sambandi.
Fréttablaðið/GVA
Sigríður Heiðberg segir aldrei fleiri kettlinga hafa komið í Kattholt en um þessar mundir. Ástæðan sé sú að fólk láti ekki taka dýrin úr sambandi. Fréttablaðið/GVA

„Hér hafa aldrei verið fleiri kettlingar, mér telst til að þeir séu milli 25 og 30 hjá okkur núna,“ segir Sigríður Heiðberg, formaður Kattholts. Eins og mörg undanfarin ár reynist sumarið erfitt fyrir Kattholt og ketti almennt. Fólk fer í sumarfrí og á í mestum erfiðleikum með að fá fóstur fyrir gæludýrin. Kreppan hefur einnig leikið dýrahaldið grátt, dýrara er að hafa gæludýr á heimilunum og stundum eru ferfætlingarnir þeir fyrstu sem fá að finna fyrir niðurskurðarhníf heimilisbókhaldsins.

Enda segir Sigríður árið í ár eilítið öðruvísi; fólk hafi ekki lengur efni á því að fara með dýrin til dýralæknis og láta taka þau úr sambandi og því berist óvenju margir smáir og sætir kettlingar um þessar mundir. „Kreppan er bara komin í Kattholt, það er ekkert flóknara en það,“ útskýrir Sigríður og bætir við að líknarfélagið anni ekki lengur þessum fjölda dýra. Enda má ekki gleyma því að fjölmargar læður og fress eru einnig skilin eftir á hlaðinu í Kattholti. „Fáir ánafna peningum til okkar um þessar mundir og þetta er sennilega í fyrsta skipti sem ég bið dýravini og fólki sem þykir vænt um málleysingjana að gefa okkur kattamat. Svo að við getum allavega gefið þeim að borða.“

Örlög kettlinganna velta á því hvort fyrir þá finnist heimili. „Og svo, þegar svona margir kettlingar eru samankomnir á einum stað, koma upp veikindi og ónæmiskerfið hrynur. Og svo eru auðvitað ekki allir sem geta lifað,“ útskýrir Sigríður og það er augljóslega þungt yfir henni. Enda þykir henni erfitt að hugsa til þess að einhverjir af hinum snoppufríðu kettlingum muni aldrei njóta alls þess besta sem kattarlífið hefur upp á að bjóða.

Fréttablaðið greindi frá því á svipuðum tíma í fyrra að óskilakisur hefðu aldrei verið fleiri. Þá voru 52 sem biðu upp á von og óvon hvort einhver dýravinur hefði bolmagn til að taka kisu að sér. En nú eru það ungarnir sem verða fyrir barðinu á kreppunni og eru skildir eftir fyrir utan Kattholt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. „Við fundum einn í Smáranum, einan og yfirgefinn, en sem betur fer fundum við strax gott heimili fyrir hann. Við vorum ekkert að bíða í þessa viku sem venjan er enda hefur enginn spurst fyrir um hann,“ segir Sigríður.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×