Innlent

Óttast lokun skurðstofu í Vestmannaeyjum

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja hefur sent Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra bréf vegna meintrar ákvörðunar ráðherrans um að skurðstofu í bænum skuli lokað í einn og hálfan mánuð í sumar. Í bréfinu kemur fram að bæjarstjórn hafi fundað með fulltrúum Heilbrigðisstofnunar fyrir fáeinum vikum þar sem þeir hafi sýnt sjónarmiðum heimamanna fullan skilning og tekið yrði tillit til þeirra í sparnaðaraðgerðum.

„Vestmannaeyjabæ hafa ekki borist frekari fregnir hvað varðar lokun skurðstofu. Slíkt veldur talsverðum óþægindum því talsvert er leitað til Vestmannaeyjabæjar eftir svörum hvað þetta varðar," segir í bréfinu.

Þá er bent á að hundruðir Eyjamanna hafi skrifað undir undirskriftalista með svohljóðandi forskrift:

„Í sumar stendur til að loka skurðstofunni í Vestmanneyjum í um einn og hálfan mánuð. Með þeirri ákvörðun stjórnvalda verður nauðsynleg þjónustu skert til muna og öryggi bæjarbúa lagt í hættu. Sem dæmi þurfa barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra að gera sérstakar ráðstafanir til þess að eiga börn sín í Reykjavík, leigja sér íbúð með tilheyrandi kostnaði eða vera upp á aðra komnar þar á þessum tímamótum í lífi sínu"

Elliði segist taka undir hvert orð í þessari forskrift. Enn fremur minnir hann á þá miklu hættu sem lokun skurðstofu í Vestmannaeyjum hefur í för með sér fyrir íbúa og gesti.

„Ég óska hér með eftir tafarlausum upplýsingum um það hvort að til standi að loka skurðstofunni við Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja í einhvern tíma í sumar. Sé svo hversu langan tíma verður þá þar um að ræða. Þá óska ég einnig eftir upplýsingum um það hvort afstaða læknaráðs Heilbrigðisráðs Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja liggi fyrir hvað varðar sumarlokun skurðstofu," segir Elliði í bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×