Innlent

Tekist á um sunnlenska orku

Sunnlendingar vilja nýta orku í eigin þágu.
Sunnlendingar vilja nýta orku í eigin þágu.

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi halda kjördæmisþing á Hótel Selfossi í dag og hófst þingið klukkan 13. Samkvæmt heimildum Sunnlendings.is hyggjast sjálfstæðismenn í Árnessýslu bera fram tillögu á þinginu þess efnis að virkjuð orka á Suðurlandi verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi en ekki annarsstaðar. Á þinginu mun kjörnefnd jafnframt kynna tillögu að framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vegna komandi kosninga til Alþingis.

Líklegt er að sjálfstæðismenn á Suðurnesjum taki dræmt í tillögu félaga sinna í Árnessýslu þar sem Suðurnesjamenn vilja að orkan verði nýtt til atvinnusköpunar á Suðurnesjum. Sveitarstjórnarmenn og almenningur á Suðurlandi krefst þess hins vegar í vaxandi mæli að sunnlensk orka verði nýtt í héraði. Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samþykkti bókun í þá veruna á fundi stjórnarinnar síðastliðinn fimmtudag.

Samkvæmt heimildum Sunnlendings er fremur þungt hljóðið í sjálfstæðismönnum í Árnessýslu eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um síðustu helgi en enginn Árnesingur var á meðal fjögurra efstu í prófkjörinu. Kjartan Ólafsson, alþingismaður í Ölfusi, hafnaði í 5. sæti en Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú fjóra þingmenn í kjördæminu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×