Innlent

Íbúi við Hverfisgötu handtók fjóra brennuvarga

Íbúi við Hverfisgötuna hljóp á eftir fjórum brennuvörgum eftir að þeir höfðu kveikt í mannlausu húsi við götuna í gærkvöldi. Náði hann að loka þá inni á veitingastaðnum Ítalíu og halda þeim þar til lögreglan kom á staðinn. Því var um að ræða svokallaða borgaralega handtöku. Um er að ræða börn á aldrinum 11 til 15 ára og mun lögregla vísa máli þeirra til barnaverndaryfirvalda.

 

Slökkviliðinu barst tilkynning um eld í húsinu um sex leytið í gærkvöldi. Allar stöðvar voru sendar af stað en þegar fyrsti bíllinn kom á vettvang var stórútkallið afturkallað þar sem aðeins logaði í rusli á jarðhæð hússins og tók því enga stund að slökkva eldinn.

 

Íbúinn, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að kona sín hafi orðið vör við ferðir brennuvargana bæði fyrir brunann og eftir að slökkviliðið fór af vettvangi. „Ég hélt því á eftir þeim en var búinn að hringja í lögregluna og var með hana í farsímanum meðan á eftirförinni stóð," segir íbúinn. „Þetta voru fjórir unglingar og á leiðinni upp á Laugaveg útveguðu þeir sér barefli og héldu síðan inn á veitingastaðinn Ítalíu. Þar náði ég að læsa þá inni þar til lögreglan kom."

 

Íbúinn sem og varðstjóri í slökkviliðinu segja að það sé stórhættulegt að kveikja í húsi á borð við það sem stendur við Hverfisgötu 32 þar sem kveikt var í. Þetta er fyrrum hústökuhús og þar leita rónar oft skjóls og eiga til að leggjast til svefns þarna innandyra.

 

„Það er stórhættulegt fyrir unglinga sem þessa að stunda íkveikjur í þessu hús en slíkt hefur gerst áður," segir íbúinn. „Skyndilega gætu þessir brennuvargar verið komnir með morð á samviskuna."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×