Innlent

Ýmsar upplýsingar komnar fram

lögreglan Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið í samvinnu við lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og Snæfellsnesi.
lögreglan Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið í samvinnu við lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og Snæfellsnesi.

Gert er ráð fyrir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum krefjist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir fimm Litháum og einum Íslendingi, að sögn Jóhannesar Jenssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Suðurnesjum. Mennirnir hafa verið í einangrun vegna rannsóknar lögreglu á skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi, þar á meðal meintu mansali og tryggingasvikum.

Mennirnir voru í yfirheyrslum í gær. Þá hefur lögregla rætt við litháísku stúlkuna sem kom hingað til lands frá Varsjá í Póllandi í síðasta mánuði. Atburðir við komu hennar hingað leiddu til handtöku hóps manna, svo og húsleita. Auk þessa hefur lögreglan rannsakað gögn sem lagt hefur verið hald á í húsleitum.

„Rannsóknin hefur skilað ýmsum upplýsingum,“ segir Jóhannes, en segir ákveðið hafa verið að greina ekki nánar frá málinu að svo komnu, vegna rannsóknarhagsmuna.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins rannsakar lögreglan nokkur brotamál af ýmsum toga, þar á meðal fjársvikamál, sem mennirnir eru taldir tengjast með einum eða öðrum hætti. Lögregla segir rannsóknina vel á veg komna.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×