Innlent

Yfirgáfu bílinn eftir að hann festist

Tveir menn sem leitað var að við Hvalfell inni af Botnsdal í Hvalfirði í fyrrinótt fundust heilir á húfi eftir nokkurra klukkustunda leit áttíu björgunarsveitarmanna í slagviðri í fyrrinótt.

Mennirnir höfðu beygt til vesturs af svokallaðri Uxahryggjaleið sem liggur frá Þingvöllum í Borgarfjörð. Slóðinn sem þeir óku liggur að Hvalvatni inni af botni Hvalfjarðar. Þegar jeppabifreið þeirra festist yfirgáfu þeir bílinn og ætluðu sér að ganga í Botnsdal en villtust fljótlega. Þeir létu ættingja vita af sér um tíuleytið og höfðu þeir samband við björgunar­sveitir um miðnætti.

Mennirnir voru í símasambandi um nóttina en vissu ekki hvar þeir voru, enda myrkur, ausandi rigning og þeir án staðsetningartækja. Þeir urðu viðskila og fannst sá fyrri um hálffjögur en sá síðari ekki fyrr en undir morgun. Mennirnir voru nokkuð hraktir eftir næturgönguna.

Að sögn Frímanns Andréssonar hjá svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu hefði tekið miklu styttri tíma að finna mennina hefðu þeir haldið kyrru fyrir í bílnum, en bíll björgunarsveitar Borgarfjarðar ók fram á hann þegar klukkan tvö í fyrrinótt.

- sbt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×