Fótbolti

Margrét Lára: Ég er komin aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára fagnar einu marka sinna í dag.
Margrét Lára fagnar einu marka sinna í dag. Mynd/Daníel

Margrét Lára Viðarsdóttir var hæstánægð með sigurinn á Serbum í dag og ekki síst þau fjögur mörk sem hún skoraði í leiknum.

Leiknum lauk með 5-0 sigri en Margrét Lára skoraði fyrstu þrjú mörkin og svo það síðasta í leiknum. Fyrir þennan leik hafði hún skorað eitt mark í þeim sjö landsleikjum sem höfðu farið fram á árinu auk þess sem það hefur gengið á ýmsu hjá henni í sænsku úrvalsdeildinni.

„Það var virkilega góð tilfinning að skora í dag enda er þetta búið að vera upp og niður hjá mér í ár. En ég held bara að ég sé komin aftur," sagði hún eftir leikinn í dag.

„Liðið er í toppstandi og við erum allar búnar að leggja hart að okkur fyrir EM. Leikmenn hafa verið að taka stórar ákvarðanir til þess eins að verða betri og ég held að það sé að skila sér nú."

„Mér fannst við þó ekki byrja nægilega vel í þessum leik í dag - við vorum heldur seinar í gang. Þetta var betra hjá okkur í seinni hálfleik."

„En það verður þó að hafa það í huga að við höfum verið að spila við mun sterkari lið á þessu ári og því aðallega verið að liggja í vörn og beita skyndisóknum. Nú vorum við aðallega með boltann. Við vorum pínulítið ryðgaðar en hjólin voru farin að snúast í seinni hálfleik."

Þetta var síðasti leikurinn fyrir úrslitakeppni EM í Finnlandi sem hefst í þarnæstu viku. „Það er virkilega gott að fara inn í það mót með sjálfstraustið í hámarki," bætti Margrét Lára við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×