Innlent

Stefna að útboði á næsta ári

Vegagerðin segir gert ráð fyrir efnistöku í Hófsá vegna jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Áhrif efnistökunnar verði þó að mestu afturkræf. Fréttablaðið/Jón Sigurður
Vegagerðin segir gert ráð fyrir efnistöku í Hófsá vegna jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Áhrif efnistökunnar verði þó að mestu afturkræf. Fréttablaðið/Jón Sigurður

Samkvæmt frummatsskýrslu Vegagerðarinnar verða umhverfisáhrif af gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar að mestu óveruleg.

„Áhrif á samgöngur og samfélög eru verulega jákvæð en á landnotkun, fjörur, straumvötn og landslag eru áhrifin á mörkum þess að vera talsvert neikvæð og óveruleg", segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Fram kemur að Samgönguáætlun geri ráð fyrir að göngin verði gerð á árunum 2011 til 2014.

„Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir árið 2007, er hún kynnti svonefndar mótvægisaðgerðir vegna minni þorskkvóta, að flýta ætti jarðgangagerðinni þannig að hægt væri að taka göngin í notkun árið 2012. Þessar yfirlýsingar kunna að vera úreltar vegna efnahagsástands, en ákveðið hefur verið að halda áfram með hönnun og undirbúning," segir þar.

Tillaga að framkvæmdinni og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hennar liggur frammi til kynningar til 15. desember næstkomandi hjá Ísafjarðarbæ, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan er aðgengileg á heimasíðu Náttúrustofu Vestfjarða, www.nave.is.

„Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 15. desember 2009 til Skipulagsstofnunar," segir í Lögbirtingablaðinu.- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×