Enski boltinn

Kári Árnason heillaði stjóra Plymouth upp úr skónum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason er að leita sér að nýju félagi. Hér er hann (númer 8) í landsleik við Möltu.
Kári Árnason er að leita sér að nýju félagi. Hér er hann (númer 8) í landsleik við Möltu. Mynd/AFP

Kári Árnason er kominn langleiðina með að vinna sér inn samning hjá enska B-deildarliðinu Plymouth Argyle en hann stóð sig mjög vel í 2-0 sigri liðsins á Truro City í æfingaleik í gær. Kári kom inn á í hálfleik og heillaði stjórann upp úr skónum.

Kári kom inn í stöðu aftasta miðjumanns á tígulmiðju og Paul Sturrock, stjóri liðsins var ánægður með hversu vel hann las leikinn þó að hann viðurkenndi að Kári þyrfti að komast í betra form.

„Hann sýndi að þar er á ferðinni mikill keppnismaður sem les leikinn vel. Hann er hávaxinn og góður íþróttamaður sem gefst aldrei upp. Ég er mjög ánægður með hann," sagði Paul Sturrock í viðtali við staðarblaðið, Evening Herald.

Kári lék í dönsku deildinni á síðasta tímabili, fyrst með AGF en síðan með Esbjerg. Hann er nú samningslaus en ætti að fá samning frá Plymouth fljótlega á borðið miðað við viðbrögð stjórans.

Kári er 26 ára gamall og lék í fimm tímabil með Víkingi áður en hann fór út í atvinnumennsku. Hann lék með sænska liðinu Djurgårdens IF í tvö tímabil áður en hann fór til Danmerkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×