Erlent

Ástralar hækka viðbúnaðarstig vegna hákarla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hvítháfur.
Hvítháfur. MYND/AP

Sumarið er fram undan í Ástralíu og miklar varúðarráðstafanir verða gerðar á baðströndum vegna tíðra hákarlaárása á þessu ári.

Hákarlaleitarþyrlur eru nýjasta viðbótin við öryggisráðstafanir á áströlskum baðströndum eftir töluverða fjölgun tilfella þar sem hákarlar ráðast á baðstrandagesti undanfarin misseri. Þrisvar sinnum á þessu ári hafa hákarlar ráðist á fólk við strendurnar en enginn hefur þó látið lífið í slíkri árás nýlega.

Hákarlagirðingar eru úti fyrir öllum helstu baðströndum Ástralíu en fyrir kemur að hákarlar komast í gegnum þær. Oft eru þeir að elta minni fiska en mikið átak Ástrala í umhverfismálum hafsins hefur gert það að verkum að sjórinn er mun tærari nú en áður og vill það laða hákarlana nær. Dagana 19. desember til 10. janúar, þegar flestir Ástralar flykkjast á sólarstrendurnar í jólafríinu, verða þyrlur á sveimi yfir helstu baðströndum landsins til að fylgjast með vágestum.

Nokkuð hefur verið um hvítháfa við ástralskar strendur en það er mjög skæð tegund í návígi auk þess sem þeir eru friðaðir í ástralskri landhelgi samkvæmt þarlendum lögum. Áströlsk yfirvöld benda baðgestum á að fara varlega, hvað sem öllu eftirliti líði. Aldrei sé hægt að tryggja fullkomið öryggi þeirra sem synda í sjónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×