Innlent

Fréttablaðið nær réttum þingmannafjölda

Síðasta könnun Capacent Gallup var nær úrslitum kosninga en síðasta könnun Fréttablaðsins ef litið er til kjörfylgis. Könnun Fréttablaðsins var hins vegar nær réttum þingmannafjölda hvers flokks.

Að meðaltali var frávik könnunar Capa-cent Gallup, sem gerð var 21. til 23. apríl, 1,3 prósentustig frá úrslitum kosninga. Mestu frávikin voru frá kjörfylgi Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Capacent Gallup ofmat fylgi Vinstri grænna um 4,6 prósentustig og vanmat fylgi Framsóknarflokksins um 2,8 prósentustig. Frávik frá kjörfylgi annarra flokka var innan við eitt prósentustig.

Fréttablaðið var að meðaltalið 1,5 prósentustigum frá úrslitum kosninga. Mestu frávikin voru frá kjörfylgi Framsóknarflokksins, sem Fréttablaðið vanmat um 3,5 prósentustig, þá vanmat blaðið fylgi Sjálfstæðisflokks um 1,8 prósentustig. Fylgi Samfylkingar var ofmetið um 2,0 prósentustig og fylgi Vinstri grænna var ofmetið um 2,4 prósentustig.

Bæði Fréttablaðið og Capacent vanmátu þingmannafjölda Framsóknarflokks um tvo menn og þingmannafjölda Sjálfstæðisflokks um einn mann. Þá vanmat Capacent þingmannafjölda Samfylkingar um einn, en Fréttablaðið ofmat samfylkingarþingmenn um einn. Þá ofmat Fréttablaðið fjölda þingmanna Vinstri grænna um tvo, en Capa-cent Gallup ofmat fjölda þingmanna Vinstri grænna um fjóra. Fréttablaðið var því með sex þingmenn ranga, en Capacent Gallup átta.- ss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×