Lífið

Guffi bílasali stefnir ótrauður á þing

Gjörþekkir mannlegt eðli og telur það ákjósanlegan kost fyrir þingmann.
fréttablaðið/stefán
Gjörþekkir mannlegt eðli og telur það ákjósanlegan kost fyrir þingmann. fréttablaðið/stefán

„Hverjum geturðu treyst ef þú getur ekki treyst bílasalanum þínum?" er slagorð Guðfinns Halldórssonar - Guffa bílasala - í komandi kosningabaráttu. Maðurinn á bak við slagorðið: Frúin hlær í betri bíl!, Guffi, ætlar fram í komandi alþingiskosningum. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sjálfsögðu og stefnir á framboð í Reykjavík.

„Já, ég ætla í framboð. Maður hefur fengist við Lalla Johns, Árna Johns, Ólaf Ragnar og allt þar á milli. Ég hlýt að búa yfir mikilli reynslu og þekki mannlegt eðli mjög vel. Hef marga fjöruna gengið og margan sjóinn sopið," segir Guffi fjallbrattur. Hann segist hafa verið bílasali nú í rúm fjörutíu ár. Sem er einsdæmi á Íslandi. Og segir að tali einhver illa um Sjálfstæðisflokkinn sinn komi sá ekki að tómum kofunum.

„Það er harðbannað að pissa opinberlega án þess að það séu skilti þar um. Sama er með þessa menn sem voru gefnar frjálsar hendur. Það stóð hvergi að þeir ættu að haga sér eins og gíraffar. Kannski má skamma Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa sett stóra Machintosh-dós fyrir framan lítið barn og segja að hann megi bara taka einn mola á viku. Verði að duga fram að jólum," segir Guffi og bregður fyrir sig líkingamáli.

Helsta baráttumál Guffa er að skuldir almennings verði afskrifaðar. „Það verður að binda snöggan enda á þetta ástand sem er á heimilunum. Leggja af verðtryggingu, skila auðlindum aftur til fólksins. Ég er eindreginn andstæðingur kvótakerfisins og algert skilyrði er að við göngum ekki í Evrópubandalagið," segir Guffi bílasali sem stefnir ótrauður á þing. „Ef ég get ekki selt sjálfan mig, þá get ég ekki selt bíla. Og það get ég. Það liggur fyrir." - jbg






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.