Enski boltinn

Chelsea fékk leyfi til þess að nota Drogba á móti Fulham á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba í leiknum á móti Birmingham í gær.
Didier Drogba í leiknum á móti Birmingham í gær. Mynd/AFP

Didier Drogba og Salomon Kalou verða eftir allt saman með Chelsea í nágrannaslagnum við Fulham á mánudaginn en enska toppliðið fékk undanþágu hjá knattspyrnusambandi Fílabeinsstrandarinnar til að seinka heimför þeirra til 29. desember.

Chelsea þarf virkilega á Drogba að halda í leiknum þar sem Nicolas Anelka er enn meiddur.

Didier Drogba og Salomon Kalou áttu að hitta aðra landsliðsmenn Fílabeinsstrandarinnar á morgun þar sem leikmenn áttu að gangast undir læknisskoðun fyrir æfingabúðir liðsins í Tansaníu en framundan er Afríkukeppni landsliða.

„Við spurðum landsliðsþjálfarann og hann gaf okkur leyfi. Anelka getur ekki spilað með á móti Fulham en verður með í fyrsta leiknum á nýju ári," sagði Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.

Það dugði Chelsea liðinu þó ekki að hafa Didier Drogba með á móti Birmingham í gær því liðinu mistókst að skora í fyrsta sinn í 34 leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×