Innlent

Minnir á grísku byltinguna

Stefania við Vatnsstíg Gríski nemandinn hrópaði og kallaði á íslensku við mótmælin, en það sem var að gerast fékk hana til að hugsa til stóratburða frá sínum heimahögum árið 1973.
fréttablaðið/valli
Stefania við Vatnsstíg Gríski nemandinn hrópaði og kallaði á íslensku við mótmælin, en það sem var að gerast fékk hana til að hugsa til stóratburða frá sínum heimahögum árið 1973. fréttablaðið/valli

„Það misbýður réttlætiskennd minni að sjá lögregluna handtaka fólkið sem hefur komið sér fyrir í þessu húsi,“ segir Stefania Kromydaki, grískur háskólanemi sem var við mótmælin á Vatnsstíg þegar lögreglan leiddi hústökufólkið burt í járnum.

„Þetta hús er látið grotna niður til að þrýsta á leyfi til þess að rífa það. Þannig er það orðið lýti á Reykjavík og svo þegar fátækt, ungt fólk með góðar hugmyndir kemur til að gera eitthvað gott úr því þá er gripið til þessara aðgerða. Þetta fólk hefur engan stað til að halla höfði sínu, hvar ætlar lögreglan að láta það búa? Úti á götu?“

Mótmæli hafa sett svip sinn á sögu Grikklands. Það voru til dæmis mótmæli ungs fólks, sem síðar leitaði sér skjóls í Tækniháskólanum í Aþenu árið 1973, sem kom herforingjastjórn frá völdum það ár. Þeirrar byltingar er minnst af mikilli lotningu þar í landi allar götur síðan. „Það er ekki laust við að ég minnist þeirra atburða þegar ég sé þetta, það er margt af því sem hér er að gerast sem minnir á byltinguna í Grikklandi sem kennd er við Tækniháskólann.“

Stefania var á meðal þeirra sem sátu fyrir lögreglubílum sem fóru um Vatnsstíg og sá blaðamaður að hún lenti nærri staur þegar henni var hent af götunni. „Það eru nú bara smámunir miðað við það sem er að gerast hérna,“ segir hún aðspurð um það atvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×