Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Skynsamlegasta niðurstaðan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson. Mynd/Arnþór

Gunnlaugur Jónsson sagði það hafa verið skynsamlegustu lausnina í stöðunni að hann hættir samstundis þjálfun liðs Selfoss.

Frá því var greint fyrr í kvöld að Gunnlaugur og stjórn knattspyrnudeildar Selfoss hafi komist að því samkomulagi að Gunnlaugur hætti strax sem þjálfari.

Um helgina var greint frá því að Gunnlaugur taki við þjálfun Vals nú þegar tímabilinu lýkur. Það spurðist út skömmu fyrir leik Selfoss og Hauka á laugardaginn og fór það illa í marga Selfyssinga.

„Þetta mál sprakk í andlitinu á okkur og þetta var því skynsamlegasta niðurstaðan. Nú er hægt að setja punkt við þetta dæmi og leikmenn farið að einbeita sér að þessum mikilvæga leik á laugardaginn," sagði Gunnlaugur í samtali við Vísi í kvöld.

„Ég fundaði með stjórn og leikmönnum í dag. Það er allt í góðu á milli allra aðila," bætti hann við.

Gunnlaugur er uppalinn Skagamaður en lék einnig með KR áður en hann hélt til Selfoss. Þar náði hann frábærum árangri og stýrði liðinu upp í efstu deild í fyrsta sinn og getur Selfoss tryggt sér sigurinn í deildinni með góðum úrslitum gegn ÍA á heimavelli um helgina.

Þann leik hafði Gunnlaugur hugsað sér að spila. „Það hefði verið rómantískt að klára tímabilið og minn leikmannaferil á móti Akranesi og landa þá þessum titli. En ég tók ákvörðun í síðustu viku og þá varð allt vitlaust. Ég held að það sé ágætt að því máli sé nú bara lokið."

„Hvort ég fari á leikinn eða ekki kemur bara í ljós. Ég stýri alla vega liði Selfossi ekki. En ég vona að strákarnir fái titilinn afhendan á heimavelli og að þeim takist að enda þetta tímabil jafn glæsilega og það hefur verið í sumar."

Þrátt fyrir allt segist Gunnlaugur ekki sjá eftir neinu. „Ég hef sagt það áður - þetta tilboð var allt of spennandi til að hafna því. Við það mun ég standa. Aðstæður hefðu þó vitanlega mátt vera allt aðrar. Að sjálfsögðu átti þetta ekki að fara svona."

Hann telur líklegt að hann muni byrja að funda með forráðamönnum Vals í vikunni. „En það er alveg klárt að Atli (Eðvaldsson) klárar tímabilið hjá Val. Ég hef heldur ekki trú á því að ég verði á bekknum hjá Val í þessum síðustu leikjum tímabilsins. Ég mun þó alveg örugglega fylgjast með upp í stúku."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×